Gagnagrunnurinn tekur til dánarbúsuppskrifta, skiptabóka og uppboða sem til eru frá 18. og 19. öld og varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Nokkuð er líka um gögn sem varða eigur lifandi fólks, svo sem vegna hjónaskilnaða og gjaldþrota. Dánarbúin eru þungamiðja verkefnisins. Þau innihalda nákvæmar skrár yfir eftirlátnar eigur fólks og taka til fatnaðar, sængurfata, mataríláta, verkfæra og búfjár, með fleiru. Þetta eru ómetanlegar upplýsingar um afkomu fólks og lífskjör í landinu. Skrárnar eru gerðar vegna opinberra skipta á arfi sem áttu að fara fram væru erfingjar annaðhvort á barnsaldri eða búsettir í öðrum landshlutum.
Á landsvísu eru varðveitt gögn um eignir eða arfaskipti ríflega 30.000 einstaklinga eða um það bil fimmta hvern látinn fullorðinn einstakling frá síðustu áratugum 18. aldar til loka 19. aldar. Mest er til frá árunum 1821-1870 en eftir það dró úr skráningu vegna breytinga á lögum. Varðveisla er góð í öllum sýslum landsins. Flest dánarbúin eru eftir fólk á aldrinum 30-70 ára, jafnt fátæka sem ríkra, og 40 af hundraði þeirra eru eftir konur.
Umsjón efnis
VERK í VINNSLU
Hér er vísað til ítarefnis sem varðar efni og notkun gagnagrunnsins
Már Jónsson hóf athugun á dánarbúum og öðrum skiptagögnum haustið 2009. Hugmyndin var í fyrstu að kanna eftirlátnar eigur fólks, svo sem fatnað, verkfæri og bækur eins og þær birtar í uppskriftum dánarbúa. Arfaskipti reyndust vera óhjákvæmilegur hluti slíkrar athugunar og jafnframt uppboð. Fyrsta afurð verkefnisins var greinin „Skiptabækur og dánarbú 1740-1900. Lagalegar forsendur og varðveisla“ í tímaritinu Sögu vorið 2012 (sjá síðu um tiltæka umfjöllun). Þá hafði verið hannaðar einfaldur gagnagrunnur í forritinu FileMaker Pro sem Þjóðskjalasafn útvegaði og sú ákvörðun tekin að skrá öll tiltæk skiptagögn í sýsluskjalasöfnum og skjalasöfnum hreppa til ársins 1900. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands studdi verkefnið árin 2012-2014. Sigríður Agnes Sigurðardóttir sagnfræðinemi vann sex mánuði við skráningu í Suður-Múlasýslu og Skaftafellssýslu. Einnig kom Guðný Hallgrímsdóttir sagnfræðingur að verkefninu með því að skrá gögn úr Eyjafjarðarsýslu á fyrstu áratugum 19. aldar og Ágústa Edwald fornleifafræðingur sem skráði Skagafjarðarsýslu eftir 1860. Sigurður Högni Sigurðsson sagnfræðingur tók talsvert af myndum sem flýttu fyrir. Gott samstarf tókst snemma í þessu ferli við Íslendingabók um leit að fæðingarárum fólks og voru á móti sendar upplýsingar um dánarár sem vantaði þar.
Skönnun skiptabóka hófst á vegum Þjóðskjalasafns síðla sumars 2018 og var ákveðið að þær yrðu tengdar við færslur í gagnagrunninum. Þá var skráningu gagna til ársins 1860 nánast lokið og næstu áratugir vel á veg komnir. Vinna við grunninn var þá orðin hluti af viðamiklu rannsóknarverkefni, Heimsins hnoss. Söfn efnismenningar, menningararfur og merking, undir stjórn Sigurðar Gylfa Magnússonar. Það hlaut öndvegisstyrk frá Rannís til þriggja ára frá og með 1. maí 2018. Tveir meistaranemar í sagnfræði, Guðrún Hildur Rosenkjær og Arnheiður Steinþórsdóttir, unnu hálft ár hvor við undirbúning undir skönnun, tengingu mynda, skráningu eftir 1860 og leit í bréfasöfnum sýslumanna. Árið 2019 fékkst styrkur úr Rannsóknasjóði HÍ til vinnu Arnheiðar og Ragnhildar Önnu Kjartansdóttur sagnfræðinema við frekari leit í Íslendingabók og kirkjubókum. Á skrifandi stundu er þeim verkþætti ekki alveg lokið.
Síðla sumars 2020 flutti Brjánn Fransson kerfisstjóri Þjóðskjalasafns gagnagrunninn yfir í MySQL og kom honum fyrir á vefþjóni safnsins. Vefviðmót hannaði Jóhann Friðriksson forritari á kostnað Hnossverkefnisins.
Reykjavík 14. desember 2020
Hér að neðan eru leiðbeiningar um virkni einstakra leitarsvæða í vefviðmótinu.
Við leit að persónunöfnum er æskilegt að setja nöfn innan gæsalappa. Annars birtast allir sem hafa sama fornafn og/eða eftirnafn.
Heiti einstaklinga hafa verið samræmd. Til dæmis er notast við kvenmannsnafnið Málfríður, þó í heimildum gæti t.v. verið ritað Málmfríður.
Við leit að bæjarnöfnum þarf að hafa í huga að leitast var við að nöfn þeirra væru skráð sem næst nútíðarrithætti.
Miðað er við andlátsár eða fyrstu tiltæku dagsetningu dánarbús, skipta eða uppboðs, en skráningu eigna ef fólk var á lífi.
Leitað var að hinum látnu í Íslendingabók en jafnframt að einhverju marki í manntölum og kirkjubókum. Þetta er verk í vinnslu. Nokkuð vantar enn af upplýsingum og er þess þá getið í færslum.
Karlar og konur. Færslur um hjón ná yfir skráningu eigna eða eignaskipti við hjónaskilnaði og þegar fólk brá búi eða var gert upp vegna afbrota.
Stöðu er sjaldan getið í uppskriftum eða við skipti. Hér er aukið við upplýsingum úr manntölum og úr Íslendingabók. Þó vantar mikið á að þessar upplýsingar séu tæmandi og leitarniðurstöður þar sem staða fólks er notuð hvorki tæmandi né öruggar.
Verðmat á eignum fyrir skuldir við arfaskipti, séu þau varðveitt, en annars við uppskrift eða uppboð. Miðað er við ríkisdali til og með árinu 1874 en krónur eftir þann tíma. Fram undir lok 18. aldar var verðmat oft í hundruðum og álnum. Meginregla hér er að reikna sex ríkisdali í hundraðinu en upprunalegt mat kemur fram í athugasemdum.
Hægt er að afmarka leit eftir því hvaða gögn eru varðveitt. Dánarbú segir til um skráningu eigna og tekur einnig til einstaklinga sem voru á lífi. Uppboð og Skiptabók útskýra sig sjálf en Lóðseðlar er þegar uppskrift eigna er ekki varðveitt en skiptabók sýnir hvað hver erfingi fékk í sinn hlut (misnákvæmlega þó).
Hér birtast frekari upplýsingar um hvern einstakling. Varðveisla gagna kemur fram og dagsetningar á skráningu, skiptum og uppboði, eftir atvikum. Verðmatið sést og heimilda er getið, með myndum að því marki sem þær liggja fyrir. Þarna eru líka athugasemdir sem urðu til við vinnslu gagnagrunnsins, oftast um erfingja en stundum varðandi frekari heimildir.